Fréttir

Fimmtudagur, 12. September 2024 04:55
Nýr vefur

Hér opnar nýr vefur helgaður lambakjötinu frá Ströndum og rannsóknum og vöruþróun á býlinu Húsavík í Steingrímsfirði.

Nýtt efni mun bætast hér inn á næstu vikum. Fylgist því með!

Lostalengjur

Á Ströndum eru bithagar mjög góðir. Lambakjöt af Ströndum hefur mjög gott orð á sér og er eftirsótt af þeim sem þekkja til og vilja gott kjöt. Það má því ætla að það sama eigi við um ærkjötið. Aðalbláber er mjög víða að finna á Ströndum. Sauðfé finnst berin góð eins og mannfólkinu, enda eru þau hollur matur. Í rannsóknum hefur verið sýnt fram á mikla andoxunarvirkni aðalbláberja og meira en í ýmsu grænu grænmeti (Ólafur Reykdal, 2005). Það er því mjög góð blanda að nota aðalbláber í kryddlög fyrir kjötið, sem getur þá tekið í sig virkni aðalbláberjanna.

Lostalengjur urðu til við þróun heima í Húsavík. Tilraunir með nýjungar í framleiðslu á reyktu áleggi gáfu þessa niðurstöðu. Hráefnið í framleiðsluna eru snyrtir kindavöðvar af ungum ám. Húsavíkuránum er slátrað hjá SAH afurðum á Blönduósi og keypt til viðbótar af sömu afurðastöð. Unnið er úr kjötinu heima í Húsavík. Nokkuð af hráefninu nýtist ekki í Lostalengjur en verið er að þróa vöru úr þeim hluta til að fullnýta það. Vöðvarnir eru marineraðir í aðalbláberjalegi og fleiru síðan reyktir við blöndu reykefnis, sem er framleiðsluleyndarmál. Varan er að svo búnu þurrkuð, pökkuð og seld kæld eða fryst eftir atvikum. Í raun eru ekki notuð nein ný hráefni eða tæki við þessa framleiðslu. Bara þekkt hráefni notuð á nýjan hátt.

Í tillögum að framreiðslu er gert ráð fyrir að nota Lostalengjurnar aðallega í forrétti og smárétti t.d. í móttökum. Til að byrja með er áætlað að framleiða aðeins úr því hráefni sem fellur til í Húsavík.

Í framhaldi af framleiðslu Lostalengja var ákveðið að vera með lambakjöt til sölu fyrir heimamarkað. Lömbunum er slátrað í Sláturhúsi SAH afurða á Blönduósi. Bæði verður hægt að fá kjöt í heilum og hálfum skrokkum, hangikjöt og einstaka skrokkhluta.